Skipulag heilbrigðisþjónustu

Nú liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu og eru þau aðgengileg á vef Heibrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Drögin byggja á niðurstöðu nefndar sem ráðherra skipaði í október 2003. Nefndin hafði það hlutverk að endurskoða lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Brýnt þótti að taka lögin til endurskoðunar í ljósi breytinga sem orðið hafa í heilbrigðisþjónustunni.

     Í drögunum er sem fyrr mörkuð sú stefna að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Þær breytingartillögur sem koma fram eru m.a þær að skýrt er kveðið á um að heilbrigðisþjónusta sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

      Í þessu felst sú stefnumörkun að vægi heilsugæslunnar í heilbrigðisþjónustunni skuli aukast. Ekki kemur fram hvort verið sé að horfa til einhverskonar  tilvísanakerfis eða hvort talið er að með því að styrkja starfsemi heilsugæslunnar muni það leiða af sjálfu sér að hún verði almennt fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er  ljóst að til að heilsugæslan verði sá hornsteinn sem stefnt er að verður að tryggja gott aðgengi að henni og stuttan biðtíma.

      Ekki er með beinum hætti kveðið á um breytingar á rekstrarformi einstakra þátta þjónustunnar, þó er opnað fyrir þann möguleika að heilbrigðisstofnanir geti , með leyfi ráðherra,  samið við aðrar stofnanir eða heilbrigðisstarfsmenn um að veita ákveðna þætti þeirrar almennu heilbrigðisþjónustu sem þeim ber að veita. Einnig er kveðið á um heimild ráðherra til að bjóða út bæði rekstur og kaup á heilbrigðisþjónustu.

                      ÁLYKTUN LANDSFUNDAR SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

 

     Í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um heilbrigðismál er lögð áhersla á að best fari á því að sveitarfélögin beri ábyrgð á nærþjónustu s.s. heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Jafnframt er hvatt til efldrar heimahjúkrunar og heimaþjónustu svo aldraðir, fatlaðir og aðrir sem búa við skerta getu fái búið sjálfstætt með nauðsynlegri þjónustu svo lengi sem þeir kjósa.  Í ályktun landsfundarins er einnig lagt til að einkaaðilum, sjálfseignarstofnunum, líknarfélögum, og heilbrigðisstarfmönnum verði gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og kostir einstaklingsframtaks þannig nýttir í meira mæli á þessu sviði.

                                            REYNSLA SVEITARFÉLAGA

     

     Sveitarfélagið Hornafjörður hefur á grundvelli ákvæða um reynslusveitarfélög séð um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands um nokkurra ára skeið. Þjónusta við fatlaða er einnig á forræði sveitarfélagsins.  Reynsla Hornfirðinga af þessu fyrirkomulagi er í stórum dráttum góð. Heilbrigðisþjónusta í sveitarfélögum er tengd félagsþjónustunni og með samþættingu hefur tekist að veita aukna þjónustu á því stigi sem hentar hverjum einstaklingi. Auk stjórnenda Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur bæjarstjórn Akureyrar haft forræði þessara mála á sinni hendi. Stjórnendur annarra sveitarfélaga s.s. Vestmannaeyja hafa borið ábyrgð á þjónustu við fatlaða. Sömu sögu er að heyra frá þessum sveitarfélögum og frá Hornfirðingum. Þjónustan er heildstæðari og nýtist betur, þrátt fyrir það hefur helsti ásteytingarsteinninn verið það fjármagn sem fylgdi þjónustunni. Þetta er svipuð reynsla og frá því grunnskólarnir voru færðir á forræði sveitarfélaganna, þá jukust bæði kröfur og metnaður um að gera betur.   Með lögum nr.78/2003 voru m.a. gerðar þær breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu að stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður. Þessar breytingar hafa orsakað það að bein aðkoma sveitar- og bæjarstjórna að stjórn og skipulagi heilbrigðisþjónustu heima í héraði er ekki lengur fyrir hendi. Helstu rökin fyrir þessum breytingum voru að rétt væri að fjármála- og stjórnunarleg ábyrgð væri á sömu hendi. Þau rök eru góð og gild, spurningin er hvaða hendi.

     Samhliða væntanlegri umfjöllun Alþingis þarf að fara fram almenn umræða um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Umræða á vettvangi bæjar- og sveitastjórna er mikilvæg. Fyrir liggur að endurskoða þarf samninga um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga. Velferðarþjónustan og það hvernig henni er best fyrirkomið er þar veigamikið málefni. Vanda þarf til verka og nýta þekkingu sem orðið hefur til í þeim sveitarfélögum sem tóku að sér tiltekin verkefni til reynslu


Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband