Sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðismál eru undirstöðumálaflokkur í hverju samfélagi og sá lagarammi sem um þau er settur, skiptir höfuðmáli við skipulag og framkvæmd þjónustunnar. Mikilvægt er að kostur gefist  á fjölbreyttu rekstrarformi sem best þjónar þörfum fólksins í landinu og gefur því fólki sem þar starfar tækifæri á að nýta sem best frumkvæði sitt, þekkingu og krafta.

Á vef Heilbrigðis-  og tryggingamálaráðuneytisins eru aðgengileg drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu. Í drögunum er opnað fyrir þann möguleika að heilbrigðisstofnanir geti samið við aðrar stofnanir eða heilbrigðisstarfsmenn um að veita ákveðna þætti hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Einnig er kveðið á um heimild ráðherra til að bjóða út bæði rekstur og kaup á heilbrigðisþjónustu.

Í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um heilbrigðismál er lögð áhersla á að best fari á því að sveitarfélögin beri ábyrgð á nærþjónustu s.s. heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Í ályktun landsfundarins er einnig lagt til að einkaaðilum, sjálfseignarstofnunum, líknarfélögum, og heilbrigðisstarfmönnum verði gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og kostir einstaklingsframtaks þannig nýttir í meira mæli á þessu sviði.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur á grundvelli ákvæða um reynslusveitarfélög séð um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands. Reynsla Hornfirðinga af þessu fyrirkomulagi er í stórum dráttum góð. Heilbrigðisþjónustan er tengd félagsþjónustunni og með samþættingu hefur tekist að veita aukna þjónustu á því stigi sem hentar hverjum einstaklingi. Það sem steytt hefur á er það fjármagn sem fylgt hefur með verkefninu. Það er gömul saga og ný að þegar forræði verkefna flyst á heimaslóð aukast bæði metnaður og kröfur um að gert sé betur.

Almenn umræða um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu er mikilvæg. Ekki síst þarf sú umræða að fara fram á vettvangi bæjar-og sveitarstjórna. Fyrir liggur að endurskoða þarf samninga um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga. Velferðarþjónustan og það hvernig henni er best fyrirkomið er þar veigamikið málefni. Vanda þarf til verka og svo sem lesa má úr orðanna hljóðan, var tilgangurinn með því að fela svokölluðum reynslusveitarfélögum tiltekna málaflokka sá að læra af reynslunni.

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband