Þriðjudagur, 31. október 2006
Mennt er máttur
Mannauðurinn er auðlind sem flestir eru sammála um að sjálfsagt sé að virkja og nýta. Hver og einn er best til þess fallinn að virkja eigin auð, sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Í því sambandi er menntun í víðum skilningi þess orðs undirstaða. Við nemum bæði innan menntakerfisisns og með því að lifa lífinu og takast á við hin margbreytilegu viðfangsefni sem það færir okkur.
Á síðustu árum hafa þarfir og kröfur til menntakerfis okkar breyst m.a. þannig að það þarf að mæta námsþörf einstaklinga frá bernsku og fram á efri ár. Eins þarf menntakerfið að vera í stakk búið til að mæta hinum ólíku þörfum og getu einstaklinganna. Í því sambandi er mikilvægt að þeir sem búa við einhverskonar hömlun fái, eins og aðrir, innan menntastofnana aðstoð við og tækifæri til að sníða sér stakk eftir vexti.
Það er í anda sjálfstæðisstefnunnar að öllum sé tryggður réttur til menntunar og skilyrði sköpuð svo hver og einn hafi tækifæri til þroska og að nýta og njóta hæfileika sinna hvar sem þeir liggja. Útgjöld til menntamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru há á Íslandi miðað við önnur ríki OECD en við vitum þó að gera má betur m.a. m.t.t. námsferlisins og útkomu.
Ég tel sveigjanleika og fjölbreytni, bæði í innra starfi og rekstrarformi skóla á öllum stigum mikilvægan. Þannig náum við fram hugmyndaauðgi og fjölbreyttum lausnum. Aðgangur að góðri menntun sem tekur tillit til þarfa og áhugasviðs einstaklinganna er eitt besta veganestið sem við getum veitt fólki til að takast á við verkefni framtíðarinnar.
Í Suðurkjördæmi eru öflugir skólar á leik- grunn- og framhaldsstigi. Eðli máls samkvæmt er starfsemi þessara skóla í stöðugri þróun og sífellt er stefnt að enn betra starfi. Háskólanám þarf að efla og þar sýnast vænleg fyrstu skref að fara í samstarf við Háskóla sem fyrir eru í landinu og byggja á þeirri starfsemi og þekkingu sem fyrir er í kjördæminu.
Í vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja sem hið opinbera og einkaaðilar í héraði hafa gert með sér og undirritaður var á Hvolsvelli 13.10.2006 er lögð áhersla á að, þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu. Þetta á að gera með því að leggja áherslu á uppbyggingu á þeim sviðum sem sterkust eru á svæðinu m.a. með því að efla menntun og rannsóknir. Leggja áherslu á að skapa aðstæður fyrir nýsköpun og markaðssetningu. Skapa aðstæður til að nýta nýjustu þekkingu á hverju sviði. Auka samvinnu aðila í rannsóknum og þekkingariðnaðarfyrirtækjum. Nýta mannauð og styrkja og auka starfsþjálfun og menntun.
Þessar áherslur skapa dýrmæt sóknarfæri á sviði menntamála sem áhugavert er að fá að taka þátt í að nýta.