7.10.2006 | 09:19
Tungumálið
Ég sá í sjónvarpinu í gær viðtal við frambjóðanda í prókjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ung kona af pólskum uppruna sem vakti athygli mína á jákvæðan hátt.
Það er mikilvægt að þátttakendur í stjórnmálum hafi fjölbreytta reynslu að baki og komi henni á framfæri . Eitt af því sem umræddur frambjóðandi ræddi var staða mála varðandi íslenskukennslu þeirra sem hingað flytja. Hún benti á að hér væri pottur væri brotinn.
Hún nefndi í því sambandi mál sem ég hef nokkuð velt fyrir mér. Þetta er sú staðreynd að fjöldi þeirra sem starfar við umönnun á dvalar og hjúkrunarheimilum er fólk af erlendu bergi brotið. Íslensku kunnátta þessa hóps er afar mismunandi og oft á tíðum eru tjáskipti íbúa heimilanna og þeirra sem þjónustuna veita erfið.
Orð eru hluti af umönnun, hið talaða mál bæði tónn og innihald skipta máli, málfræði skiptir hér minna máli, aðalatriðið er að fólk geti auðveldlega gert sig skiljanlegt Þetta er mikilvægt bæði þeim; sem þjónustuna veita og hennar njóta.
Það er nauðsynlegt að tryggja að íslenskukennsla sé aðgengileg og að nám í málinu sé hluti af því að taka þátt í samfélaginu. Ein leið til að auðvelda fólki námið væri að það færi fram á dagvinnutíma.
Það mætti hugsa sér að, auk hinnar hefðbundnu kennslu, væri starfsmönnum á vinnustöðum sem hefðu góð tök á málinu og góða samskiptafærni falið að sinna þjálfun í hinu talaða máli, einfaldlega með því að nota það markvisst í samtölum.
Hér eins og annarsstaðar er gott að vera með augun opin og skoða og nýta leiðir sem eru líklegar til að virka. Málið er mikilvægt og hefur áhrif á möguleika fólks á að taka þátt í nýju samfélagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2006 kl. 22:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.