11.10.2006 | 14:29
Menning og saga
Ég átti erindi í Meðalland. Þegar ég gekk um hús að Hnausum og stóð þar á hlaði fann ég sterkan andblæ liðinna tíma. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein hér á landi og menning og saga landsins eru þar dýrmætar auðlindir. Mikill akur er óplægður í að gera þessa þætti aðgengilega og sýnilega þeim sem leið eiga um, tækifærin liggja víða. Að Hnausum er verið að byggja upp gömul bæjarhús. Það eru Byggðasafnið í Skógum, með Þórð Tómasson í broddi fylkingar, og bóndinn að Hnausum Vilhjálmur Eyjólfsson, f.1923, sem standa að þessu merka verkefni. Byrjað var á fjósinu sem er frá því fyrir Skaftárelda og einstakt hús í dag. Upphleðslu á fjósinu er lokið og gefur það glögga mynd af lífi og starfi fólks í sveit fyrr á öldum. Lágt er til lofts í fjósinu, enda voru menn þar bognir bæði við að gefa og mjólka og mikilvægt að nýta efnið og plássið vel. Fjósið var notað fram til ársins 1970. Yfir fjósinu er fjósbaðstofa, þar nýtti fólk ylinn frá kúnum og sýslaði og svaf. Eftir að önnur híbýli voru reist svaf gamalt fólk og sjúkt enn í baðstofunni. Vilhjálmur bóndi man eftir gömlum manni sem lést á fjósloftinu árið 1943. Á árum áður var algengt að skipbrotsmenn úr hinum tíðu ströndum við Suðurströndina nytu aðhlynningar í baðstofunni. Hér á efri myndinni erum við sýslumaður V-Skaftfellinga og Vilhjálmur fyrir utan fjósið. Á neðri myndinni sit ég á púkabitanum og ræði við lista hleðslumenn og smiði.
Smiðjan að Hnausum er elsta húsið, hún stendur yst gömlu húsanna og mun það fyrirkomulag hafa verið algengt vegna eldhættu. Vilhjálmur segir smiðjuna vera frá því um árið 1000. Á hlaðinu fannst fyrir nokkrum árum gamall brunnur sem nú hefur verið listilega hlaðinn upp. Að Hnausum mun hafa verið kirkja frá því um 1200 en ummmerki um hana eru horfin. Sr. Jón Jónsson sem kom prestur að Hnausum lét byggja þar stofu árið 1804. Stofan stendur á svipuðum slóðum og kirkjan og kirkjugarðurinn voru forðum. Í þessari stofu sem nú er verið að byggja upp hélt málfræðingurinn Rasmus Christian Rask til um tíma á ferðum sínum um landið á árunum 1813-1815.
Það leynist mikil og merk saga á hlaðinu að Hnausum og þeir eru ófáir staðirnir sem eins er ástatt um. Hver og einn ætti að skoða sitt nánasta umhverfi og huga að hvort ekki leynast tækifæri til sóknar á þessu sviði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.