Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.10.2006 | 23:02
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn
GEÐORÐIN 10
1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
4. Lærðu af mistökum þínum
5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.10.2006 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2006 | 13:23
Gamalt og nýtt.
Um daginn var ég að leita í bókahillunum að einhverju til að glugga í. Fyrir mér varð ritið Um vináttuna eftir Marcus Tullius Cicero, sem gefið var út á vegum Hins íslenzka bókmenntafélags árið 1995.
Cicero var rómverji sem var uppi á fyrstu öld fyrir Krist. Hann helgaði líf sitt stjórnmálum en var jafnframt merkur heimspekingur.
Ég hafði bæði gagn og gaman af að lesa þessa fornu speki og leyfi mér að vitna örstutt í hana hér á þessari bloggsíðu nútímans.
Eftir Cicero liggja merk rit bæði um stjórnspeki og mælskulist. Í samræðunni Um ræðumanninn ræðir hann meðal annars þá kröfu heimspekinga að ræðumenn styðjist við þekkingu á viðfangsefni sínu og tali af heilindum en ekki af vanþekkingu eða gegn betri vitund aðeins til að sannfæra áheyrendur.(Úr inngangi bls. 14).
Um vináttuna segir Cicero m.a. Við skulum því láta það vera fyrsta lögmál vináttunnar að við förum þess aðeins á leit við vini okkar sem heiðvirt er og gerum það eitt fyrir þá sem heiðvirt má teljast. Bíðum þess jafnvel ekki að vera beðnir heldur verum ávallt boðnir og búnir og aldrei hikandi. Okkur ber að þora að gefa góð ráð af hreinskilni því í vináttu er mest um vert að báðir aðilar séu hollráðir. (bls. 86)
Það er erfitt að bæta einhverju við strax eftir þennan texta svo ég læt hér staðar numið í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2006 | 20:38
Umræður um framtíðarsýn
Veigamikið hlutverk stjórmálamanna er að móta stefnu, kynna hana fyrir fólkinu í landinu og, fái þeir til þess umboð, framfylgja henni.
Það liggur í augum uppi að slík stefnumörkun er til framtíðar og þar koma fram þær hugmyndir og hugsjónir sem viðkomandi stjórnmálamaður hefur.Það getur verið grundvallarmunur á því hvernig stjórnmálamenn nálgast það að setja fram stefnu sína og framtíðarsýn.
Góð leið er að kynna hvernig umhverfi og jarðveg stjórnmálamaðurinn vill skapa svo fólkið í landinu geti á eigin forsendum nýtt frumkvæði sitt og kraft við að skapa sér og samborgurum sínum þá framtíð sem það óskar að búa í.
Í skýrri grundvallar stefnumörkun felst sú sýn sem byggjandi er á til langrar framtíðar.
Á fjögurra ára fresti gefst svo dýrmætt tækifæri til að gefa stefnunni og stjórnmálamönnunum einkunn, fyrir hvernig sú stefna sem sett er til framtíðar, reynist í nútíð og er metin í fortíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2006 kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2006 | 09:19
Tungumálið
Ég sá í sjónvarpinu í gær viðtal við frambjóðanda í prókjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ung kona af pólskum uppruna sem vakti athygli mína á jákvæðan hátt.
Það er mikilvægt að þátttakendur í stjórnmálum hafi fjölbreytta reynslu að baki og komi henni á framfæri . Eitt af því sem umræddur frambjóðandi ræddi var staða mála varðandi íslenskukennslu þeirra sem hingað flytja. Hún benti á að hér væri pottur væri brotinn.
Hún nefndi í því sambandi mál sem ég hef nokkuð velt fyrir mér. Þetta er sú staðreynd að fjöldi þeirra sem starfar við umönnun á dvalar og hjúkrunarheimilum er fólk af erlendu bergi brotið. Íslensku kunnátta þessa hóps er afar mismunandi og oft á tíðum eru tjáskipti íbúa heimilanna og þeirra sem þjónustuna veita erfið.
Orð eru hluti af umönnun, hið talaða mál bæði tónn og innihald skipta máli, málfræði skiptir hér minna máli, aðalatriðið er að fólk geti auðveldlega gert sig skiljanlegt Þetta er mikilvægt bæði þeim; sem þjónustuna veita og hennar njóta.
Það er nauðsynlegt að tryggja að íslenskukennsla sé aðgengileg og að nám í málinu sé hluti af því að taka þátt í samfélaginu. Ein leið til að auðvelda fólki námið væri að það færi fram á dagvinnutíma.
Það mætti hugsa sér að, auk hinnar hefðbundnu kennslu, væri starfsmönnum á vinnustöðum sem hefðu góð tök á málinu og góða samskiptafærni falið að sinna þjálfun í hinu talaða máli, einfaldlega með því að nota það markvisst í samtölum.
Hér eins og annarsstaðar er gott að vera með augun opin og skoða og nýta leiðir sem eru líklegar til að virka. Málið er mikilvægt og hefur áhrif á möguleika fólks á að taka þátt í nýju samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2006 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 00:26
Langur dagur og talsverð tíðindi.
Var að koma heim eftir dágóðan dag. Fór í mitt daglega sund um sjöleytið og sinnti svo skemmtilegum skylduverkum áður en ég lagði af stað til Reykjavíkur á fund miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins.
Það hljóta að teljast talsverð tíðindi að Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri flokksins til 26 ára lætur af störfum á næstunni og við tekur ungur maður; Andri Óttarsson.
Ég hef ekki kynnst Kjartani náið en það þarf ekki að dyljast neinum að hann hefur verið farsæll í störfum sínum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Andri hefur verið virkur í starfi ungra sjálfstæðismanna og öflugur penni á deiglunni.is. Hann fær nú gott tækifæri til að láta enn frekar til sín taka.
Lagði lykkju á leið mína heim og hitti gott fólk, kem því seint heim.
Hlustaði á rás 1 þar sem forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Geir mæltist vel, svo sem hans var von og vísan.
Finnst það mikilvægt að í umræðum um stjórnmál leggi menn áherslu á, fyrir hvað þeir standa fremur en misjafnlega vel ígrundað hnútukast. Það er vandi að vera í stjórnarandstöðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2006 | 17:10
Kraftmikið Kjördæmisþing
Uppsveitir Árnessýslu skörtuðu sínu fegursta þegar sjálfstæðismenn fjölmenntu að hótel Geysi á aðalfund kjördæmisráðs. Móttökur á hótelinu rímuðu við veðrið og voru í alla staði húsráðendum til sóma og gestum til gleði og góða. Í þessari ágætu umgjörð fór fram kröftugt þing, þar sem menn stilltu saman strengi, ákvörðun var tekin um að halda prófkjör þannn 11.11. nk. og það er til marks um grósku og góðan hug í flokknum hve margir hafa þegar tilkynnt um þátttöku í prófkjörinu. Sjálf hef ég lýst því yfir að ég sækist eftir fjórða sæti listans.
Formaður flokksins Geir H Haarde, eiginkona hans Inga Jóna Þórðardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður sátu þingið og var það enn til að bæta góðan brag. Að loknu þingi var komið við í kirkju Björns bónda í Úthlíð, það er einstök bygging og sérstaklega gott að koma þar inn og eiga þar stund. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að sjálfstæðismenn komu til síns heima tilbúnir í vinnuna framundan fyrir sterkt Suðurkjördæmi.
Sjálfstæðismenn á Suðurlandi með prófkjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2006 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2006 | 14:14
Byrjuð að blogga
Þá er ég byrjuð að blogga. Sá gjörningur tengist þátttöku minni í væntanlegu prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Mér sýnist þessi vettvangur góður til að koma mínum hugleiðingum og skoðunum á framfæri. Jafnframt væri af því bæði gagn og gaman að þeir sem líta hér við geri vart við komu sína.
Það er í raun eðlilegt framhald á þáttöku minni í stjórnmálum að gefa kost á mér í prófkjörinu og þessari ákvörðun minni fylgir sú vitund að nái ég kjöri felur það í sér að vera málsvari breiðrar fylkingar fólks víðsvegar að úr kjördæminu og sú skylda að vinna að framgangi mála er varða þess hag. Hér til hliðar er að finna nánari upplýsingar um mig og minn feril, myndir af ýmsu tagi, greinar og upplýsingar um hvernig er hægt að ná á mér, en ein besta leiðin er í gegnum netfangið mitt: helga@sudurland.is. Þá eru einnig tenglar á hin ýmsu sveitarfélög í suðurkjördæmi, fréttamiðla og aðra bloggara.
Takk fyrir komuna og vertu velkomin/n aftur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)