25.10.2006 | 09:41
100 ára afmæli
Í dag var haldið upp á 100 ára afmæli Grunnskóla Mýrdalshrepps í Vík. Saga menntunar í Mýrdal er nokkuð lengri, en afmælisárið er miðað við árið 1906 en þá tók skóli til starfa 9.október og lauk kennsluáruni 22. apríl 1907. Fyrstu árin fór kennslan í Vík fram í góðtemplarahúsinu, 1910 var byggt skólahús sem með seinni tíma viðbyggingu er félagsheimilið Leikskálar.
Guðmundir Finnbogason magister ferðaðist um landið á vegum landsstjórnarinnar upp úr aldamótunum 1900 og kynnti sér ástand fræðslumála. Hann lýsti aðstöðu í húsinu svo: Skólastofa, 1xbrxh = rúmfet. 17x17x9 = 2.601 rúmfet. 1 rúða á hjörum, sjaldan opnuð. Húsið er eign Goodtemplara og notað til allra funda; úr timbri, járnvarið allt, veggir óstoppaðir; í meðallagi vandað. Umhverfis sandur. Vindofn hitar illa. Langborð og baklausir bekkir. Húsið reist 1900" (Sunnlenskar byggðir VI, bls. 458).
Með mér á myndinni er Ólafur Pétursson frá Giljum.
Það var við hæfi að hátíðarhöld dagsins hófust í gamla skólahúsinu með ræðu Jóns Inga Einarssonar sem rifjaði upp atvik frá sinni skólastjóratíð, en hann starfaði bæði í gamla húsinu og því h úsi sem í dag hýsir starfsemi grunnskólans okkar. Frá Leikskálum var gengið til áframhaldandi hátíðarhalda í nýju og glæsilegu íþróttahúsi við grunnskólann. Nemendur settu góðan brag á hátíðina með söng og spili, auk þess sem skólanum bárust góðar gjafir og kveðjur. Kynntur var nýr skólasöngur, en það er í fyrsta skipti í hundrað ára sögu skólans sem hann eignast sinn söng. Anna Björnsdóttir kennari við skólann er höfundur lags og texta og eftir að gestir höfðu hlýtt á sönginn og sungið hann saman létu viðstaddir í ljós ánægju. Að lokum var boðið upp á veitingar að hætti foreldra. Yngsti nemandi skólans Jakobína Kristjánsdóttir sem fædd er 20.12.2000 og elsti fyrrverandi nemandinn sem viðstaddur var hátíðarhöldin, Ólafur Pétursson fæddur 12.06.1909 gengu fyrst að veisluborðinu.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og stórstígar breytingar orðið í menntamálum okkar Íslendinga á liðinni öld. Mannauðurinn er auðlind sem flestir eru sammála um að sjálfsagt sé að virkja og nýta. Hver og einn er best til þess fallinn að virkja eigin auð, sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Í því sambandi er menntun í víðum skilningi þess orðs undirstaða. Við nemum bæði innan menntakerfisins og með því að lifa lífinu og takast á við hin margbreytinlegu viðfangsefni sem það færir okkur. Á síðustu árum hefur menntakerfi okkar breyst m.a. þannig að það þarf að mæta námsþörf einstaklinga frá bernsku og fram á háan aldur. Aðgangur að góðri menntun sem tekur tillit til þarfa og áhugasviðs einstaklinganna er ein besta leiðin til að gefa hverjum og einum tækifæri á að nýta og njóta vel þess sem í honum býr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög góð grein Helga, gangi þér vel!
oli (IP-tala skráð) 22.10.2006 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.