6.11.2006 | 13:43
FERÐIR FRAMBJÓÐANDANS
Á laugardagsmorgun lagði ég af stað með þá áætlun að hitta gott fólk í Hveragerði í opnu húsi sjálfstæðismanna þar, fara á sameiginlegan fund frambjóðenda á Hellu og hitta fleira gott fólk á ferð minni um Árnes-og Rangárvallasýslu.
Gerði ráð fyrir að fara heim um kvöldið og fljúga svo frá Bakka um hádegisbil á sunnudegi til að taka þátt í fundi í Vestmannaeyjum. Fyrri hluti áætlunarinnar gekk eftir. Það var fjölmenni í Hveragerði og fjörugar umræður.Fundurinn á Hellu var sömuleiðis harla góður og fundarformið gefur góða möguleika á návígi við fundarmenn og innihaldsríkum umræðum. Samgöngumál eru ofarlega í huga manna á báðum stöðum. Öflug grunnþjónusta og mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs eru einnig áherslumál.
Eftir fundinn á Hellu var ljóst að spáð var vondu veðri daginn eftir og nokkuð ljóst að ekki yrði flugveður og varla sjófært. Ekki voru áform um að fresta fundi í Eyjum, ég taldi afar mikilvægt að hitta eyjamenn og tók því þá ákvörðun að breyta áætlun og taka ferð með Herjólfi þá um kvöldið svo ég kæmist örugglega til fundar við vestmannaeyinga. Var ekki búin undir útilegu og stökk því inn í verslun og keypti það nauðsynlegasta. Var því miður ekki með fartölvu frekar en annað, og lítið varð úr áformum um greinaskrif og blogg, en koma tímar og koma ráð.
Það var veltingur í Herjólfi en ég lá í koju og leið bara bærilega. Átti góðan tíma í Eyjum, fór í sund að morgni sunnudags og messu í Landakirkju eftir hádegi. Ákvörðun var tekin um að fresta fundinum sem átti að vera kl 16: til kl. 20: því ríflega helmingur frambjóðenda var ekki kominn til Eyja og einhver von var talin á að flugfært yrði með kvöldinu. Svo varð ekki og það voru því sex frambjóðendur sem funduðu með vöskum hópi heimamanna.
Það kom ekki á óvart að það eru samgöngumálin sem brenna á heimamönnum. Þar eru þrír valkostir helst til umræðu, auk flugsins. Bakkafjöruferja, jarðgöng og svo stærri og betri Herjólfur. Niðurstaða í þessum málum þarf að liggja fyrir sem fyrst, en jafnframt er nauðsynlegt að tím verði tekin til að ljúka þeirri undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er svo tryggt verði að þeir kostir sem best gagnast verði valdir. Það þarf að vinna hratt og markvisst að því að ljúka þeim rannsóknum því um lífæð Vestmanneyja er að ræða. Ég hitti talvert af fólki bæði á förnum vegi og á fundi, sem lagði áherslu á nauðsyn þess að athugað yrði strax með möguleika á leigu á stærra og betra skipi á leiðinni Eyjar Þorlákshöfn, meðan aðrir kostir væru skoðaðir niður í kjölinn.
Það var orðið flugfært á Bakka að morgni mánudags, ferðin tók 6 mínútur, átti bílinn minn á Hellu. Ók sem leið lá til Víkur og er nú að leggja af stað til Reykjanesbæjar þar sem von er á fjölmennum fundi í kvöld. Frambjóðandinn er sem sagt á ferð og flugi og hefur sem fyrr gagn og gaman af.Myndin er tekin á Hótel Þórshamri í Vestmannaeyjum, hlýtt og notalegt inni en úti stormur og stórsjór.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:59 | Facebook
Athugasemdir
Nú fer að styttast í þetta!! GO!GO!GO! Við hugsum til þín hérna útí Kaupmannahöfn!
Skarphéðinn Árni er sko byrjaður að hlaupa, (næstum) Það er alla veg hægt að elta hann!
Svanlaug (IP-tala skráð) 8.11.2006 kl. 22:06
Hlaupum til sigurs með Helgu og Skarphéðni!
Harpa Elín, 9.11.2006 kl. 13:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.