EFRI ÁRIN

Í bók Jóns Thoroddsen, Pilti og stúlku segir frá ásteytingarsteini hreppstjóranna Helgu í 4. sætiá Indriðahóli og í Sigríðartungu. Þetta var gömul og slitin kona sem enginn vissi hvar átti til sveitar. Fluttu þeir hana á milli sín í köldu veðri á jólaföstu og á hlaðinu í Sigríðartungu mælti hún sín síðustu orð í þessum heimi. „Flytjið þið mig nú hvert, sem þið viljið, skepnurnar mínar, sagði kerling; en guð fyrirgefi kónginum, nú situr hann og drekkur kaffi og brennivín og veit ekki hvað hér gjörist." Þegar bókin var skrifuð um 1850 gat  þetta vel verið raunsönn lýsing á aðstæðum aldraðra og sjúkra. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.  

Þeir sem nú eru komnir á efri ár eru fólkið sem lagði grunn að þeim lífsgæðum sem við njótum í dag. Þetta er ekki einsleitur hópur og meðan heilsan endist eru aðstæður, þarfir, vilji og geta jafn mismunandi og hjá okkur sem yngri erum. Til þessa ber að taka tillit t.d. á vinnumarkaði, þannig að þeir sem það kjósa og geta fái að nýta krafta sína óháð aldri. Það er svo jafnsjálfsagt að þeir sem vilja eða þurfa að draga sig út af vinnumarkaðnum þegar eftirlaunaaldri er náð geti það með reisn. 

Það var einhverju sinni sagt að allir vildu verða gamlir en enginn vildi vera það. Ég er ekki viss um að þetta eigi að öllu leyti við í dag. Aldraðir hafa í æ ríkari mæli haslað sér völl í umræðum og stefnumörkun um eigin málefni og öflug félög þeirra um allt land eru þar mikilvæg. Segja má að starfsemi þessara félaga sé tvíþætt, annarsvegar barátta fyrir þeim hagsmunamálum sem sameiginleg eru og hinsvegar fjölbreytt félagsstarf sem gefur kost á að skynja, skapa og njóta daganna. 

Það liggur í hlutarins eðli að með hækkandi aldri breytast aðstæður og þörf fyrir þjónustu eykst. Þá er mikilvægt að framboð þjónustunnar sé í samræmi við þarfir og að hinn aldraði eigi kosta völ. Í því sambandi er nauðsynlegt að skipulag heimaþjónustu og hjúkrunar sé með þeim hætti að  það tryggi öryggi og mæti þörfum. Þetta þýðir að veita þarf þjónustuna alla daga vikunnar og á þeim tíma sólarhringsins sem þörf krefur. Samhæfing þeirra aðila sem standa að þjónustu við aldraða er hér lykilþáttur. 

Valkostir í búsetu þurfa að vera fjölbreyttir og standa til boða í heimabyggð. Margir vilja minnka við sig húnæði og þjónustuíbúðir eru þá einn álitlegur kostur. Tryggja þarf aðgang að endurhæfingu og hvíldarinnlögnum. Gott aðgengi að þessum þáttum gerir hinum aldraða kleift að búa sjálfstætt lengur en ella.  Hjúkrunarheimili eiga að vera skipulögð með það í huga að þau eru heimili einstaklinga sem þurfa á mikilli þjónustu að halda. Virðing og umhyggja eru mikilvægir þættir í öllum mannlegum samskiptum, það á ekki síst við hér.  

Þjónusta við aldraða er í eðli sínu nærþjónusta og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga í þeim málaflokki þarfnast endurskoðunar. Jafnframt er sjálfsagt að huga að mismunandi aðferðum við uppbyggingu og rekstur og velja það sem best nýtist þeim sem þjónustuna þurfa.

Grein birt í Morgunblaðinu 29.10.06


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband